Íslensk samtímahönnun – Icelandic Contemporary Design
Sýningin Íslensk samtímahönnun – húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík á Kjarvalsstöðum í maí 2009. Síðan hefur sýningin verið sett upp í Ketilhúsinu á Akureyri, í Dansk Design Center í Danmörku, í Nordic Lighthouse í Shanghai í Kína, í Peking í 751, stærsta lista- og hönnunarhverfi borgarinnar, í Stokkhólmi á Stockholm Furniture Fair í febrúar 2011, á hönnunarvikunni í Tallin í september 2011 og lokaáfangastaður sýningarinnar er í Design Forum Finland 1. 12. 2011 – 8. 1. 2012
Á sýningunni eru verk frá mismunandi hönnuðum, þar á meðal í arkitektúr. Lækurinn í Hafnarfirði er framlag Landmótunar á sýningunni.
Verkefnið Lækurinn fólst í hönnun á götu og gönguleið meðfram hluta af Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Verkefnið er framhald af verðlaunatillögu að skóla- og leikskólasvæði við Hörðuvelli í Hafnarfirði sem hefur lengi verið útvistarvæði Hafnfirðinga, en að því vann Landmótun með Arkitektum Bergstaðastræti 10a. Eitt helsta einkenni Hafnafjarðarbæjar er náttúrulegt umhverfi með hraunkömbum inn á milli húsa, nálægð við höfnina og sjóinn og staðsetning Hamarskotslækjarins í bæjarmyndinni. Í verkefninu var tekið mið af þessum þáttum og unnið markvisst með íslensk efni svo sem hraun í hlöðnum veggjum og grágrýti í lækjarbökkum og fossaþrepum. Lögð var áhersla á gönguleið meðfram lækjarbakkanum þar sem hægt er að njóta útiveru og tylla sér niður á bekki. Landmótun tók jafnfram þátt í hönnun og skipulagi nokkurra aðliggjandi svæða. Hönnun og framkvæmdir fóru fram á tímabilinu 2001–2008. Aðalhönnuðir verksins voru landslagsarkitektarnir Ingibjörg Kristjánsdóttir á fyrri hluta og Áslaug Traustadóttir á seinni hluta. Aðrir sem komu að verkinu að hálfu Landmótunar voru landslagsarkitektarnir Hermann G. Gunnlaugsson, Samson B. Harðarson og Þuríður R. Stefánsdóttir og tækniteiknararnir Helgi Már Hannesson og Erla Huld Viðarsdóttir.
Verkefnið Lækurinn er sett fram sem uppdráttur ofaná loftmynd frá Loftmyndum ehf ásamt ljósmyndum teknum af Ingvari Högna Ragnarssyni ljósmyndara
Lesa meira: Hönnunarmiðstöð Íslands, frétt af sýningunni.
Bókaútgáfan Crymogea : Íslensk samtímahönnun í ritstjórn Elísabet V. Ingvarsdóttir sýningarstjóra. Bókin er einnig til á ensku: Icelandic Contemporary Design.