Landmótun tekur þátt í sýningu SAMARK í Himnastiga Hörpu á Hönnunarmars 23. – 26. mars 2017 en yfirskrift sýningarinnar er Virðisauki arkitektúrs. Landmótun kynnir þar útsýnispalla og göngustíga sem stofan hannaði við Dettifoss í Jökulsárgljúfri. Verkefnið er unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð í samvinnu við Eflu verkfræðistofu.
Dettifoss er einn magnaðasti foss Íslands og áfangastaður fjölda ferðamanna allt árið um kring. Á hamrabrún var valinn nýr útsýnisstaður sem opnar sýn inn gljúfrið, beint á fossinn. Pallarnir eru tveir og gefur annar færi á að standa í fossúðanum. Svífandi stígur frá bílastæði mun verða öllum fær. Efni var valið í samræmi við umhverfi, gráleitar glertrefjagrindur, stál og lerki. Grindurnar þola mikinn ágang, eru stamar og hreinsa vel af sér snjó og klaka. Við framkvæmdina var landinu hlíft eins og hægt er. Pallar og stígar eru með festingum sem gerir afturkræfni mögulega.
Markmið er að styrkja innviði, stýra álagi og auka ánægju gesta auk þess að veita komandi kynslóðum tækifæri til að njóta þeirra náttúrugæða sem í dag er stór hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Með því skapast hringrás upplifunar, öryggis og verndunar íslenskrar náttúru.
Sýningarhönnuður fyrir Landmótun er Þórarinn Blöndal myndlistarmaður.
Við hvetjum sem flesta að koma við í Hörpu um helgina.