Endurskoðað aðalskipulag Ölfuss 2010 – 2022 var staðfest af Skipulagsstofnun þann 21. september 2012. Aðalskipulagið tekur til alls lands innan marka sveitarfélagsins Ölfus, þ.e. til þéttbýlis í Þorlákshöfn, dreifbýlis og afréttarlanda. Heildarstærð skipulagssvæðis er um 740 km2.
Meginmarkmið aðalskipulagsins er að stuðla að hagkvæmri þróun byggðar á svæðinu m.a. með því að skapa sem best skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og gera búsetu á svæðinu eftirsóknaverða.
Vinna við endurskoðun á aðalskipulagi fyrir Sveitarfélagið Ölfus hefur verið unnin með hléum allt frá árinu 2007. Að þessari vinnu komu skipulagsfulltrúi, skipulagsnefnd sveitarfélagsins ásamt skipulagsráðgjöfum. Skipulagsráðgjafar voru frá Landmótun sf. Óskar Örn Gunnarsson og frá Steinsholti sf. Gísli Gíslason, Ásgeir Jónsson og Ingibjörg Sveinsdóttir.