26.05.2014.
Föstudaginn 23. maí voru vígðir og teknir í notkun Eldheimar sem er nýtt hús fyrir gosminjasýningu í Vestmannaeyjum. Byggingin er á tveimur hæðum, um 1161 m2. Lilja Kristín Ólafsdóttir frá Landmótun er landslagsarkitekt og hannaði umhverfi safnsins, arkitekt hússins er Margrét Kristín Gunnarsdóttir og sýningarhönnuður er Axel Hallkell Jóhannesson.
Eldgosið í Heimaey er í forgrunni sýningarinnar og er sögu gossins miðlað með myndefni, hljóðleiðsögn og gagnvirkum búnaði. Þungamiðjan er einbýlishús að Gerðisbraut 10 sem var grafið upp eftir um 40 ár undir vikri. Eldheimar munu einnig halda utan um sögu og þróun Surtseyjar sem reis úr hafi sunnan við Heimaey árið 1963 en það eldgos stóð yfir í nær 4 ár.
Eldheimar eru byggðir yfir rúst Gerðisbrautar 10 en húsið var grafið upp úr vikri. Eldheimar standa í dæld og umliggja háir barmar vikurs safnasvæðið. Við uppgröftinn komu nokkrar húsminjar í ljós og eru þær þungamiðja í hönnun á svæðinu utandyra. Stígar, stéttar og pallur liggja að minjunum þannig að hægt er að virða þær fyrir sér. Lagt er upp úr því að tengja saman safnið inni og úti. Heildstæð umgjörð utan um bygginguna næst með mismunandi rýmum og með samræmdu efnisvali byggingar og útisvæðis. Framkvæmdum umhverfis Eldheima er ekki lokið en hér er hægt að skoða uppdrátt sem sýnir hönnun á útisvæðinu.