Þann 7. febrúar sl. voru íslensku lýsingarverðlaunin veitt á vegum Ljóstæknifélags Íslands. Akratorg hlaut Íslensku lýsingarverðlaunin en alls voru átta verkefni tilnefnd. Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem afhenti verðlaunin við 4hátíðlega athöfn í Perlunni. Hönnuðir verksins eru lýsingarteymi Verkís og Landmótun sf. Verkkaupi er Akraneskaupstaður og allur ljósbúnaður var frá Johan Rönning.
Árið 2005 var efnt til samkeppni um framtíðarskipulag Akratorgs og næsta nágrennis sem Landmótun sigraði . Deiliskipulag Akratorgsreits var síðan unnið árið 2013 af Landmótun sf. á grundvelli fyrstu verðlaunartillögunnar og í kjölfarið var hafin vinna við hönnun torgsins. Torgið var formlega vígt á Þjóðhátíðardaginn á síðasta ári. Lýsing á torginu var unnin af Verkís í samvinnu við Landmótun.
Megin hugmyndin var að skapa torg sem yrði akkeri menningar, viðburða og þjónustu á Akranesi. Lýsingarlausnir torgsins taka mið af þessari hugmynd og skapa umhverfi sem er síbreytilegt. Lýsingin á Akratorgi er bæði hugsuð sem almenn lýsing frá ljósastaurum í kringum torgið og skrautlýsing sem er stýrt í spjaldtölvu og lýsir á svið, styttu, gosbrunn og gönguleiðir innantorgsins.
Í áliti dómnefndar um verkið Akratorg segir meðal annars: „Samspil umhverfismótunar og lýsingar er einkar vel heppnað. Almenn lýsing þjónar vel sínu hlutverki í verkinu, auk þess sem hluti hennar auðgar umhverfið með gagnvirkri, nýstárlegri lýsingarlausn. Þannig er „stemmning“ breytilegt eftir því sem við á, hvort sem um er að ræða árstíðir eða athafnir. Heildarútkoman er sannfærandi, lýsingin er þarmikilvæg og eigendur eru stoltir af verkinu. Tæknilega er verkið vel útfært, skapar gott yfirlit yfir svæðið, dregur fram sérkenni verksins og styrkir staðarandann. Lýsingin er þriðja víddin í þessu verkefni ogeykur upplifun og fjölbreytileika svæðisins.“
Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Kristbjörg Traustadóttir komu að hönnun torgsins fyrir hönd Landmótunar.