Á aðalfundi Félags íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, sem haldinn var í Gerðarsafni, Kópavogi þann 21. apríl 2015 var Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt gerður að heiðursfélaga.
Einar var einn af fimm stofnfélögum FÍLA árið 1978. Hann hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, m.a. var hann formaður þess á árunum 1980-1982 og 2005-2009. Frá upphafi hefur Einar verið ótrauður í starfi fyrir félagið, bæði í kynningu þess sem og landslagsarkitektafagsins. Hann hefur átt frumkvæði að mörgum málum, setið í ótal nefndum og staðið að undirbúningi ráðstefna þar sem lögð var áhersla á fagið og þátttöku landslagsarkitekta. Hann hefur verið virkur í erlendu samstarfi og kynnt FÍLA og íslenskan landslagsarkitektúr á þeim vettvangi.
Segja má að í störfum sínum sem landslagsarkitekt og í störfum fyrir FÍLA hafi Einar sýnt mikið frumkvæði og víða rutt braut í faglegri nálgun og aukið skilning á starfi og fagþekkingu landslagsarkitekta. Allt frá starfsviði skrúðgarðaarkitektsins 1978 til hins fjölbreytta og umfangsmikla starfssviðs landslagsarkitektsins sem lögverndaðs starfssviðs. Einar hafði m.a. frumkvæði að láta þýða Evrópska landslagssamninginn (ELC) yfir á íslensku og vann ötullega að því að fá samninginn undirritaðan hér á Íslandi 2012. Síðast en ekki síst þá hefur Einar unnið um all langt skeið að heimildaöflun um garðsögu Íslands. Einar var stofnfélagi og fyrsti formaður SAMGUS – Sambands garðyrkju- og umhverfisstjóra hjá sveitarfélögum, sat í stjórn Landverndar 1974-85 og í Náttúruverndarráði 1981-92.
Einar lauk fimm ára námi sem arkitekt frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn sumarið 1972, landslagsarkitektadeild. Allt frá útskrift hefur Einar sinnt umfangsmiklum störfum sem landslagsarkitekt, bæði á teiknistofum og einnig sem garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar. Einnig hefur hann sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Starfsferill:
1972-1977 |
Hjá Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekt FILA. Vann m.a. við deiliskipulag Seljahverfis í nánu samstarfi við Teiknistofuna Höfða. Auk þess ýmis hönnunar og skipulagsverkefni.
|
1977-1987 |
Rekstur eigin teiknistofu. Viðfangsefnin voru hefðbundin hönnunar og skipulagsverkefni landslagsarkitekta. s.s. svæðisskipulag Ölfus, Hveragerðis, Selfoss og Þingvallaþjóðgarðs. Vann að hönnun Gufuneskirkjugarðs, Vesturgötu 2, Bernhöftstorfu, Seðlabanka Íslands og fl.
|
1987 |
Var fulltrúi Íslands í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar: Natur og kulturlandskapet i arealplanleggingen, en það verkefni hlaut viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna.
|
1987-1993 |
Garðyrkjustjóri hjá Kópavogsbæ. Auk hefðbundinna stjórnunar- og fjárumsýslu sem fylgdi starfinu tók hann þátt hönnun umhverfis Kópavogskirkju, við bæjarskriftstofur í Fannborg, Kópvogsskóla, Vogatungureitsins, gróðurvæðingu við Nýbýlaveg og víðar í bæjarlandinu. Við skipulagsverkefni eins og Aðalskipulags Kópavogs 1988-2008.
|
1994-2015 |
Meðstofnandi Landmótun, teiknistofu landslagsarkitekta ásamt Gísla Gíslasyni og Yngva Þór Loftssyni.
|
Landmótun óskar Einari hjartanlega til hamingju.