Einar E. Sæmundsen heiðursfélagi FÍLA

Einar E. Sæmundsen heiðursfélagi FÍLA

Einar_E_Sæmundsen
Einar E. Sæmundsen

Á aðalfundi Félags íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, sem haldinn var í Gerðarsafni, Kópavogi  þann 21. apríl 2015 var Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt gerður að heiðursfélaga.

Einar var einn af fimm stofnfélögum FÍLA árið 1978. Hann hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, m.a. var hann formaður þess á árunum 1980-1982 og 2005-2009. Frá upphafi hefur Einar verið ótrauður í starfi fyrir félagið, bæði í kynningu þess sem og landslagsarkitektafagsins.  Hann hefur átt frumkvæði að mörgum málum, setið í ótal nefndum og staðið að undirbúningi ráðstefna þar sem lögð var áhersla á fagið og þátttöku landslagsarkitekta.  Hann hefur verið virkur í erlendu samstarfi  og kynnt FÍLA og íslenskan landslagsarkitektúr á þeim vettvangi.

Segja má að í störfum sínum sem  landslagsarkitekt og í störfum fyrir FÍLA hafi Einar sýnt mikið frumkvæði og  víða rutt braut í faglegri nálgun og aukið skilning á starfi og fagþekkingu landslagsarkitekta.  Allt frá starfsviði skrúðgarðaarkitektsins  1978 til hins fjölbreytta og umfangsmikla starfssviðs landslagsarkitektsins sem lögverndaðs starfssviðs. Einar hafði m.a. frumkvæði að láta þýða Evrópska landslagssamninginn (ELC) yfir á íslensku og vann ötullega að því að fá samninginn undirritaðan hér á Íslandi 2012. Síðast en ekki síst þá hefur Einar unnið um all langt skeið að heimildaöflun um garðsögu Íslands. Einar var stofnfélagi og fyrsti formaður SAMGUS – Sambands garðyrkju- og umhverfisstjóra hjá sveitarfélögum, sat í stjórn Landverndar 1974-85 og í Náttúruverndarráði 1981-92.

FILA2_2015
Stjórn FÍLA ásamt Einari E. Sæmundsen

Einar lauk fimm ára námi sem arkitekt frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn sumarið 1972, landslagsarkitektadeild. Allt frá útskrift hefur Einar sinnt umfangsmiklum störfum sem landslagsarkitekt, bæði á teiknistofum og einnig sem garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar.  Einnig hefur hann sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Starfsferill:  

1972-1977  

Hjá Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekt FILA.  Vann m.a. við deiliskipulag Seljahverfis í nánu samstarfi við Teiknistofuna Höfða. Auk þess ýmis hönnunar og skipulagsverkefni.

 

1977-1987  

Rekstur eigin teiknistofu.  Viðfangsefnin voru hefðbundin hönnunar og skipulagsverkefni landslagsarkitekta. s.s. svæðisskipulag Ölfus, Hveragerðis, Selfoss og Þingvallaþjóðgarðs. Vann að hönnun Gufuneskirkjugarðs, Vesturgötu 2, Bernhöftstorfu, Seðlabanka Íslands og fl.

 

1987  

Var fulltrúi Íslands í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar: Natur og kulturlandskapet i arealplanleggingen, en það verkefni hlaut viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna.

 

1987-1993  

Garðyrkjustjóri hjá Kópavogsbæ.   Auk hefðbundinna stjórnunar- og fjárumsýslu sem fylgdi starfinu tók hann þátt hönnun umhverfis Kópavogskirkju, við bæjarskriftstofur í Fannborg, Kópvogsskóla, Vogatungureitsins, gróðurvæðingu við Nýbýlaveg og víðar í bæjarlandinu. Við skipulagsverkefni eins og Aðalskipulags Kópavogs 1988-2008.

 

1994-2015  

Meðstofnandi Landmótun, teiknistofu landslagsarkitekta  ásamt Gísla Gíslasyni og Yngva Þór Loftssyni.

 

Landmótun óskar Einari hjartanlega til hamingju.