Minningarbekkur um Einar E. Sæmundsen

Minningarbekkur um Einar E. Sæmundsen

Í dag 15. september 2024 er sérstakur dagur fyrir Landmótun þar sem liðin eru 30 ár síðan stofan var stofnuð en einnig er ár liðið síðan okkar góði félagi Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt lést en Einar var einn af stofnendum Landmótunar.

Einar var vinur á vinnustað og duglegur að miðla reynslu og þekkingu. Einar hafði mikinn áhuga á samfélaginu og umhverfinu sem við lifum í. Hann taldi að við værum að hanna hversdagsumhverfi og ættum að gera það vel.

Þegar við á Landmótun vorum að ræða hvernig við vildum minnast Einars þá fannst okkur það vera í hans anda að til væri bekkur í fallegu  hversdagsumhverfi með góðu aðgengi þar sem fólk gæti sest horft, hugsað og spjallað. Gladdi okkur að fjölskylda Einars skyldi taka vel í þessa hugmynd og þakklát Helgu Ásgeirsdóttur konu Einars fyrir hennar aðstoð að velja staðsetningu fyrir bekkinn. Við erum mjög ánægð með þessa staðsetningu og teljum að Einar hefði líka verið það. Bekkurinn er við Kópavoginn í nágrenni við eina af elstu byggingum í Kópavogi, Kópavogsbæinn og rétt við Holdsveikraspítalann sem Guðjóns Samúelsson teiknaði. Bekkurinn stendu við fjölfarinn stíg á áningarstað sem Aðalheiður E. Kristjánsdóttir á Landmótun hannaði fyrir Kópavogsbæ. Þarna fer vel á að hafa bekk, þar sem við sem þekktum Einar getum sest niður og minnst hans og þá arfleið sem hann skildi eftir sig.

Landmótun gefur Kópavogsbæ þennan bekk til minningar um Einar með þökkum fyrir innblásturinn, hugmyndirnar, gleðina, handleiðsluna og endalausa þekkingarleitina sem Einar ýtti okkur út í. Haldin var stutt afhöfn við bekkinn í björtu haustveðri að viðstaddri fölskyldu Einars og vinum þar sem Friðrik Baldursson tók formlega við bekknum.

Minninagarbekkurinn um Einar E. Sæmundsen staðsettur á fallegum áningarstað hönnuðum af Aðalheiði E. Kristjánsdóttur

Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs og Helga Ásgeirsdóttir

Helga Ásgeirsdóttir og Margrét Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Landmótunar

Fjölskylda Einars E. Sæmundsen við minningarbekk Einars.